Leita í fréttum mbl.is

Miðvikudagur

Af hverju er ég ekki stödd einhvers staðar þar sem ég get borgað fyrir bjórinn í gvaraní, balbóa, bat eða kip?

Í staðinn fæ ég smá sýnishorn af vori fyrir síðustu helgi og svo ekkert nema rigningu og hundaskít fyrir utan hurðina hjá mér í þessari viku. Engin furða þó að það votti fyrir skammdegisþunglyndi þó það sé sólarupprás kl. 4:25 og sólarlag kl. 19:28 að meðaltali þessa dagana...

En maður má víst ekki vera bitur þegar það er bjart á morgnana og þriggja daga helgi í vændum... 

Er farin í háttinn til þess að ég nái að sofa nóg áður en grafan í næsta garði vekur mig í fyrramálið, líkt og hún hefur gert á undan vekjaraklukkunni alla þessa viku... 


Heyrn

Alltaf gaman að taka próf á netinu...

Your hearing rules! You're either quite young or you've looked after your ears.

The highest pitched ultrasonic mosquito ringtone that I can hear is 19.9kHz
Find out which ultrasonic ringtones you can hear!

 

Þetta er sem sagt próf sem mælir hversu háa tíðni þú heyrir. Yngra fólk á að heyra hærri hljóð en það eldra. Flestir eiga að ná að heyra hljóð upp að 14,1 kHz. Þegar hljóðin eru komin upp og yfir 17 kHz hætta flestir yfir tvítugu að heyra hljóðin. Á prófsíðunni er vísað í grein hjá BBC þar sem sagt er frá táningafælu sem spilar hátíðnihljóð á borð við þetta. Það er hins vegar það hátt að flestir eldri en 25 ára heyra það ekki. Eftir að táningafælan var sett upp í Swindon á Bretlandi, þar sem unglingar höfðu verið vandamál áður, höfðu skemmdarverk og læti snarminnkað. Merkilegur heimur...

Ég er þokkalega sátt við að heyra 19,9 kHz þar sem ég er nú bæði komin af táningsaldri og hálfheyrnarlaus. Endilega skellið þið ykkar niðurstöðum í komment...


Dingl

Það er alltaf spennandi þegar dyrabjallan hringir, sérstaklega þegar maður á ekki von á neinum sérstökum. Dyrabjallan hér á heimilinu hefur verið í reglulegri notkun alla helgina og hafa borist frá henni bæði vænt og óvænt dingl...

Í gær heyrðist í bjöllunni seinni part dags. Þá bjóst ég jafnvel við því að gamli og minnsti bróðir væru þarna á ferð, þar sem þeir eiga það til að líta við á bæjarrúntum sínum. Í ljós kom að svo var ekki heldur voru þarna á ferð stelpa og maður á miðjum aldri sem buðu mér að taka þátt í skoðunarkönnun á vegum sjöundadags aðventista. Þó að markaðsfræðingnum í mér finnist hann knúinn til að taka þátt í öllum slíkum könnunum þurfti ég að velja og hafna, taka þátt í könnun sem hefði án efa verið mjög áhugaverð eða plokka á mér augabrúnirnar fyrir partýstand kvöldisins. Tíminn er auðlind af skornum skammti. Snyrtipinninn vann því markaðsfræðinginn í þetta skiptið og afþakkaði ég þátttöku í könnuninni...

Mér finnst þetta samt áhugavert form könnunar. Yfirleitt er símtal látið nægja, enda er kostnaðurinn mun minni við hvert símtal heldur en heimsókn, bæði í tíma og peningum. Hversu fyndið væri það samt ef að Gallup tæki upp á því að labba í hús og spyrja nokkurra spurninga. Verst að þá þyrfti maður að hafa húsið spikk og span alla daga og hella upp á kaffi og svoleiðis vesen, því að sjálfsögðu væri ekki hægt að láta fólkið húka í dyrakarminum á meðan spurt er, króknandi úr kulda...

Svo rétt áðan heyrðist í bjöllunni aftur. Tíminn á milli fimm og sex er vinsæll dingl tími. Í þetta skipti vissi ég að þetta væri einhver ókunnugur þar sem ég var búin að fá góða gesti í heimsókn. Þá er það vinalegur maður hinum megin við hurðina sem bauð mér rækju og harðfisk til sölu. Ég afþakkaði pent hálf á bakvið hurðina, en hefði nú ekki haft neitt á móti því að skoða harðfiskinn ef ég hefði ekki verið ógreidd og á náttbuxunum. Finnst ekki sjarmerandi að sýna ókunnugu fólki fínu náttbuxurnar mínar og daginn eftir djamm greiðsluna, sérstaklega ekki þegar nágrannarnir hafa einnig ágætis útsýni inn um hurðina hjá mér þegar hún er opin...

Annars er snilldar helgi að baki, er með harðsperrur á ótrúlegustu stöðum eftir að hafa teygt mig og beygt í jóga síðustu daga og fór í gott partý í gær... 


Sunnudagur

"Votur er vinar kossinn" er málshátturinn sem við Ingó fengum úr risastóra Kóluspáskaegginu okkar. Við vitum ekki alveg hvað þessi málsháttur þýðir en mér finnst nú hálf dónalegur undirtónn í honum...

Gleðilega páska, ég er farin að drekkja mér í súkkulaði... 


Föstudagur

Awww mig langar í kisu...

Mjá, mjá... 


Miðvikudagur

Eins og kannski einhver ykkar hafa frétt síðustu daga þá á ég heppnasta pabba í heimi. Það kom klárlega í ljós á sunnudaginn þegar hann tók eitt gott flug heila bíllengd og gott betur eftir að ekið var á hann. Vildi bara benda á pistil eftir hann hér, þar sem ég held að þetta sé gott umhugsunarefni fyrir þá sem keyra úti í umferðinni...

Miðvikudagur

Kominn mars og mér finnst janúar bara rétt búinn. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Minnsti bróðir er orðinn 12 ára síðan ég skrifaði síðast og 29. febrúar kominn og farinn og kemur ekki aftur fyrr en eftir fjögur ár...

Ég tók þátt í að skipuleggja heljarinnar vinnupartý þann 29. og skemmtu allir sér frábærlega. Þetta var í fyrsta skipti sem ég fæ tækifæri til að tjútta með vinnufélögunum, hef alltaf verið vant við látin þegar tækifærin hafa boðist áður. Við fórum á skauta og stóð ég mig eins og hetja og fór alveg heila þrjá eða fjóra hringi með því að styðjast við göngugrind. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég þori lengra en 5 cm frá handriðinu á svellinu. Síðan fórum við í partý hjá einum sem gat hýst allan mannskapinn. Þar skemmti fólk sér fram eftir kvöldi og var þetta bara einstaklega vel heppnað kvöld... 

Pirringur dagsins er námsráðgjöf HÍ, brotnar neglur og pensilín...

Ánægja dagsins er góð bók sem ég var að klára, America's next top model og klipping á morgun, vei vei... 


Sunnudagur

Þessa dagana er maður meira og minna hálfgerð grasekkja þar sem sambýlismaðurinn situr sveittur uppi í skóla og lærir. Lokaverkefnið hans krefst mikillar yfirlegu eins og gamli hagfræðikennarinn minn myndi orða það. Þá er nú gott að eiga fullan bókaskáp og tæplega helminginn af honum ólesinn...

Ég hef nefninlega ekki verið dugleg að lesa síðustu mánuðina. Í fyrra las ég skammarlega fáar bækur og ætla mér að bæta það upp þetta árið. Það hjálpar að vísu til að núna er ég ekki með Stöð 2, en það er alveg ótrúlegt hvað manni tókst að detta inní eitthvað hundleiðinlegt efni bara af því það var í sjónvarpinu þegar ég var með áskrift af þeirri stöð...

Núna er ég frekar farin bara að slökkva á sjónvarpinu ef það er ekkert spennandi í boði og tek þá upp bók eða tölvu. Þær eru nú ekki margar bækurnar sem ég hef klárað á árinu en blaðsíðufjöldinn er þó upp á þónokkrar kiljur. Ég tók mig til og kláraði að lesa Harry Potter sem var algjör snilld. Ég byrjaði á bókaflokkinum í fyrra eftir að Ingó hafði margbeðið mig um að gefa bókunum séns. Leist nú ekkert sérstaklega vel á í byrjun, enda las ég fyrstu bókina á íslensku, þar sem hún var ekki til inni á heimilinu og ég tók hana því að láni á bóksafninu. Mér finnast bækur yfirleitt betri ef ég les þær á frummálinu, því stundum verður mér illt af því að lesa illa þýddar bækur. Eftir bók tvö var ég orðin föst og komst upp í bók fjögur en einhverra hluta vegna átti ég alltaf um hundrað blaðsíður eftir alveg síðan í fyrrasumar og þangað til núna um daginn. Þá tók ég restina af bók fjögur og las svo alveg upp í bók sjö, sem er sú síðasta. Ég er líka búin að lesa Flugdrekahlauparann sem ég fékk í afmælisgjöf í fyrra og næst í röðinni er Þúsund bjartar sólir eftir sama höfund. Flugdrekahlauparinn var mjög góð bók og vel þýdd þannig að ég veit að ég á gott í vændum.

Síðan á ég heilan helling af Stephen King bókum sem ég á eftir að lesa, hann er alltaf klassískur. Einnig keypti ég tvær bækur úti í Ameríku eftir höfunda sem ég hef ekki heyrt um áður. Sú fyrri er Stalemate eftir Iris Johansen og sú seinni er Dead Until Dark eftir Charlaine Harris. Þær hljóma mjög spennandi þegar maður les aftan á þær. Einnig fjárfesti ég í My Sister's Keeper eftir Jodi Picoult og The Color Purple eftir Alice Walker, sem eru bækur sem ég hef heyrt um en ekki enn komist í. Svo er ég áskrifandi í Ugluklúbbnum, sem sendir mér tvær kiljur á tveggja mánaða fresti þannig að ég verð seint uppiskroppa með lesefni. Er samt alltaf með augun opin fyrir góðum bókum þannig að ef þið mælið sérstaklega með einhverri bók endilega skelliði nafni og jafnvel höfundi í kommentakerfið hjá mér...

Ætla að enda þetta blogg með lagi sem er í uppáhaldi þessa dagana...


Konan sem skoðaði endur

Ákvað að henda inn nokkrum línum þar sem ég náði loksins að hafa það í mér að kveikja á tölvulufsunni hérna heima. Það versta er að ég hef bara ekki frá neinu sérstöku að segja, þannig séð...

Ég er komin með háskólapróf og fór í tilefni af því til Flórída í rúma viku. Það var frábær ferð, þó að ekki hafi verið sólbaðsveður, því þá var hægt að skoða Florida Mall þeim mun betur. Ég eyddi fullt af pening í föt, málningardót og bækur. Það er bara ekki annað hægt en að verða smá kaupóður þegar allt er svona ódýrt, tala nú ekki um að kaupa þessar fínu kiljur á aðeins $7.99 og góðar peysur á undir 20 dollarana. Við skoðuðum nú fleira en búðarglugga, fórum í Busch gardens og skoðuðum þar ljón og rússíbana, skoðuðum Ripley's safnið og margt fleira. Svo rúntuðum við aðeins um Orlando, sem var alls ekki amalegt á kolsvörtum mafíósajeppa. Nú er bara að byrja að safna sér fyrir húsi þarna úti, svo maður hafi eitthvað að gera í ellinni...

Við komum svo heim næstsíðasta daginn í janúar í svakalegt frost og snjó, sem við vorum að sjálfsögðu óendanlega hamingjusöm með. Í kjölfarið af því fengum við svo kvef og hálsbólgu og náði sú gleði hámarki núna um helgina...

Þá er ég búin að update-a þessar örfáu hræður sem villast hér inn um hvað ég hef verið að bralla undanfarnar vikur. Ég hef alveg misst sambandið við blogggyðjuna, þar sem ég hef frá voða takmörkuðu að segja og langar helst að blogga um eitthvað skemmtilegra en daglegar athafnir mínar. Vona nú að eitthvað gerist í þeim málum á næstunni og að ég geti aftur orðið sú andlega upplyfting sem ég var hér áður fyrr...


Sunnudagur

NerdTests.com says I'm a Cool Non-Nerd.  What are you?  Click here!

Þar sem ég er pínu nörd, þrátt fyrir að þetta próf segi til um annað, varð ég að setja þetta á bloggið mitt...

Annars er mest lítið að frétta. Ég er búin að vera með skítapest það sem af er árinu sem þýðir að ég hef ekkert komist í ræktina. Frekar pirrandi að vera aumingi með hor en ég fer vonandi að ná þessu úr mér. Þessa dagana er ég því búin að drekka te í lítravís, búin með nokkra pakka af strepsils og hálsbrjóstsykri og nálgast ískyggilega hratt botninn á hóstasaftinni...

Það styttist óðum í útskrift og á laugardaginn verð ég orðin B.Sc. sem er frekar töff. En næsta haust er stefnt á að byrja að ná áfanganum M.Acc. Er allavegana ánægð í vinnunni og held að ég sé nokkuð viss á því hvað ég vil gera þegar ég verð stór, sem styttist óðum í, að því gefnu að maður verði stór fyrir þrítugt...


Sunnudagur

Sit hér upp í sófa og líður eins og ég sé að svíkjast um. Nú er enginn lærdómur sem bíður en mér líður samt eins og ég ætti að vera að læra. Frekar einkennileg tilfinning...

Ég er sem sagt búin að taka mitt síðasta lokapróf í þessu námi. Ég er búin að skila lokaritgerðinni minni og það eina sem ég á eftir að gera er að verja hana núna um miðjan mánuðinn. Síðan er það bara útskrift í janúar. Ótrúlegt að ég sé bara að verða búin, mér finnst ég vera nýbyrjuð aftur í skólanum...

Ég var að föndra minn fyrsta aðventukrans og er nokkuð montin þó ég segi sjálf frá. Þó að fjölskyldan sé mjög klár í höndunum er ég með 10 þumalputta þegar það kemur að föndri. Ef einhver vill koma og skoða meistaraverkið má endilega kíkja í heimsókn til okkar í desember, þar sem ég sé loksins fram á að vera eitthvað heima á kvöldin en ekki út í skóla...


Í dag

Inni í dag: Ég komst í ræktina og svitnaði eins og enginn væri morgundagurinn...

Úti í dag: Nýja útlitið á mbl.is, ég er of vanaföst fyrir svona breytingar... 


Afslappelsi

Ég ákvað að vera góð við mig í gær þar sem ég var nú að skila B.Sc. ritgerðinni inn á þriðjudaginn. Byrjaði daginn á því að fara í klippingu og litun, þar sem ég var komin með úr sér vaxinn lubba. Kom eldhress úr sjæningunni með svaka flott hár og var næsti viðkomustaður nudd. Ég ætlaði að láta nudda úr mér stressið og vöðvabólguna sem ég er búin að safna síðustu 2 vikur, þar sem ég hef ekki komist í ræktina sökum veikinda og slappleika...

Núna er ég öll blá og marin, þar sem afslappandi nuddið mitt var ekki alveg eins og ég bjóst við. Ég lenti hjá Þjóðverja sem er sérfræðingur í einhverju japönsku þrýstipunktanuddi. Hann potaði og potaði í mig, ýtti á alla hugsanlega vöðva í bakinu, steig ofan á bakið á mér, brakaði í mér allri og snéri upp á mig eins og skrúfu. Þetta var allt bráðnauðsynlegt, að hans sögn, til að laga mig þar sem ég var víst öll í graut. Eftir klukkutíma af "afslappandi" nuddi benti hann mér á að hann hefði aðeins farið grunnt í alla vöðva hjá mér en ég mætti búast við marblettum og það sem hann kallaði "tissue pains". Í gærkvöldi var ég farin að finna fyrir áhrifum nuddsins og þurfti tvær íbúfen fyrir háttinn til þess eins að geta lagst upp í rúm. Í morgun þegar ég fór á fætur var eins og Ingó hefði tekið gott session á mér með poka fullum af appelsínum eða símaskrá. Ég er án gríns með blásvarta marbletti á bakinu. Því sit ég í sófanum heima með tonn af púðum að læra fyrir próf, því ég treysti mér ekki til að sitja á stólunum upp í skóla, allt mjög afslappandi...

Enda þetta á klassísku video-i, sem mér finnst alltaf jafn fyndið...


Dagurinn í dag

Mynd022 Í dag skilaði ég þessu. Ég er búin að vera að vinna að þessu síðan í ágúst en í raun hófst þetta verkefni í maí síðastliðinn. Ég er líklegast búin að eyða meiri tíma undanfarnar vikur með henni Ragnhildi sem skrifaði þetta með mér heldur en með honum Ingó mínum...

Þetta er barnið okkar Ragnhildar og telur um 130 bls. með viðauka, skrifað í Times New Roman og í einu og hálfu línubili, allt samkvæmt reglum. Þetta er klárlega stórvirki og verður án efa heitasta jólabókin í ár. Allavegana ætla ég bara að gefa úrdrátt úr verkefninu í jólagjöf þetta árið, nota bene aðeins úrdrátt, því ég tími ekki svona miklum pappír í ykkur öll... 

 

Þar sem ég eyddi ca. 15 klst. í gær að lesa yfir verkefnið, aftur og aftur og aftur, og varði svo fyrriparti dagsins í dag yfir prentaranum nennti ég ekki að læra meir í bili. Í hasarnum í gærkvöldi við síðasta yfirlesturinn ákvað hleðslutækið mitt fyrir tölvuna að deyja. Því þurfti ég að fara og fjárfesta í nýju í dag, þar sem ég á mjög bágt með að vera tölvulaus. Ég tók minnsta bróður með í leiðangurinn og smellti þessari mynd af honum í búðinni...

Mynd023 Ég held að litla dýrið hafi án gríns fundið tölvuskjá sem myndi ná honum vel upp fyrir mitti, væri hann settur langsum við hliðina á honum. Að sjálfsögðu þurfti hann að prófa að fikta og var kominn í tölvuleik á meðan ég borgaði fyrir hleðslutækið. Á leiðinni út minntist hann á að hann væri nú alveg til í að eiga svona. Ég veit nú um einn annan sem hefði líka ekkert á móti því að eiga svona risaskjá...


Lasin

Urr, ég er að bilast á því að vera veik!

Ég er með hálsbólgu, kvef, eyrnabólgu og beinverki. Á hverjum morgni er spennandi að heyra hvernig röddin á mér mun hljóma, þar sem ég hef vaknað með mismunandi rödd hvern morgun síðan á sunnudag. Svo sit ég hálfrænulaus á köflum og hef ekki orku í neitt nema rétt til að snýta mér eða eitthvað álíka skemmtilegt...

Fyrir það fyrsta hef ég engan tíma til að standa í svona veseni, ég á að vera að klára að setja upp ritgerðina mína og læra fyrir lokapróf. Ég hef ekki komist í ræktina alla vikuna og er að verða nett biluð á því að hanga ein heima...

Kann einhver töfralausn? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Helga Dögg
Helga Dögg
Hér er ég...
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband