Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
26.11.2007 | 09:11
Í dag
Inni í dag: Ég komst í ræktina og svitnaði eins og enginn væri morgundagurinn...
Úti í dag: Nýja útlitið á mbl.is, ég er of vanaföst fyrir svona breytingar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.11.2007 | 13:17
Afslappelsi
Ég ákvað að vera góð við mig í gær þar sem ég var nú að skila B.Sc. ritgerðinni inn á þriðjudaginn. Byrjaði daginn á því að fara í klippingu og litun, þar sem ég var komin með úr sér vaxinn lubba. Kom eldhress úr sjæningunni með svaka flott hár og var næsti viðkomustaður nudd. Ég ætlaði að láta nudda úr mér stressið og vöðvabólguna sem ég er búin að safna síðustu 2 vikur, þar sem ég hef ekki komist í ræktina sökum veikinda og slappleika...
Núna er ég öll blá og marin, þar sem afslappandi nuddið mitt var ekki alveg eins og ég bjóst við. Ég lenti hjá Þjóðverja sem er sérfræðingur í einhverju japönsku þrýstipunktanuddi. Hann potaði og potaði í mig, ýtti á alla hugsanlega vöðva í bakinu, steig ofan á bakið á mér, brakaði í mér allri og snéri upp á mig eins og skrúfu. Þetta var allt bráðnauðsynlegt, að hans sögn, til að laga mig þar sem ég var víst öll í graut. Eftir klukkutíma af "afslappandi" nuddi benti hann mér á að hann hefði aðeins farið grunnt í alla vöðva hjá mér en ég mætti búast við marblettum og það sem hann kallaði "tissue pains". Í gærkvöldi var ég farin að finna fyrir áhrifum nuddsins og þurfti tvær íbúfen fyrir háttinn til þess eins að geta lagst upp í rúm. Í morgun þegar ég fór á fætur var eins og Ingó hefði tekið gott session á mér með poka fullum af appelsínum eða símaskrá. Ég er án gríns með blásvarta marbletti á bakinu. Því sit ég í sófanum heima með tonn af púðum að læra fyrir próf, því ég treysti mér ekki til að sitja á stólunum upp í skóla, allt mjög afslappandi...
Enda þetta á klassísku video-i, sem mér finnst alltaf jafn fyndið...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.11.2007 | 23:16
Dagurinn í dag
Í dag skilaði ég þessu. Ég er búin að vera að vinna að þessu síðan í ágúst en í raun hófst þetta verkefni í maí síðastliðinn. Ég er líklegast búin að eyða meiri tíma undanfarnar vikur með henni Ragnhildi sem skrifaði þetta með mér heldur en með honum Ingó mínum...
Þetta er barnið okkar Ragnhildar og telur um 130 bls. með viðauka, skrifað í Times New Roman og í einu og hálfu línubili, allt samkvæmt reglum. Þetta er klárlega stórvirki og verður án efa heitasta jólabókin í ár. Allavegana ætla ég bara að gefa úrdrátt úr verkefninu í jólagjöf þetta árið, nota bene aðeins úrdrátt, því ég tími ekki svona miklum pappír í ykkur öll...
Þar sem ég eyddi ca. 15 klst. í gær að lesa yfir verkefnið, aftur og aftur og aftur, og varði svo fyrriparti dagsins í dag yfir prentaranum nennti ég ekki að læra meir í bili. Í hasarnum í gærkvöldi við síðasta yfirlesturinn ákvað hleðslutækið mitt fyrir tölvuna að deyja. Því þurfti ég að fara og fjárfesta í nýju í dag, þar sem ég á mjög bágt með að vera tölvulaus. Ég tók minnsta bróður með í leiðangurinn og smellti þessari mynd af honum í búðinni...
Ég held að litla dýrið hafi án gríns fundið tölvuskjá sem myndi ná honum vel upp fyrir mitti, væri hann settur langsum við hliðina á honum. Að sjálfsögðu þurfti hann að prófa að fikta og var kominn í tölvuleik á meðan ég borgaði fyrir hleðslutækið. Á leiðinni út minntist hann á að hann væri nú alveg til í að eiga svona. Ég veit nú um einn annan sem hefði líka ekkert á móti því að eiga svona risaskjá...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2007 | 13:52
Lasin
Urr, ég er að bilast á því að vera veik!
Ég er með hálsbólgu, kvef, eyrnabólgu og beinverki. Á hverjum morgni er spennandi að heyra hvernig röddin á mér mun hljóma, þar sem ég hef vaknað með mismunandi rödd hvern morgun síðan á sunnudag. Svo sit ég hálfrænulaus á köflum og hef ekki orku í neitt nema rétt til að snýta mér eða eitthvað álíka skemmtilegt...
Fyrir það fyrsta hef ég engan tíma til að standa í svona veseni, ég á að vera að klára að setja upp ritgerðina mína og læra fyrir lokapróf. Ég hef ekki komist í ræktina alla vikuna og er að verða nett biluð á því að hanga ein heima...
Kann einhver töfralausn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.11.2007 | 20:05
Námsmannafréttir
Kominn tími á smá öppdeit ef ég leyfi mér að sletta aðeins...
Er ennþá á fullu að læra. Er samt búin að skila af mér Listaháskólaverkefninu og vona bara að við fáum gott fyrir það verkefni. Núna er ég á fullu að reyna að koma lokaritgerðinni okkar á blað, þar sem það styttist óðum í fyrstu skil. Nóvember verður tekinn með trukki, lokaskil á ritgerðinni eru þann 20. nóvember og svo er lokapróf hjá mér þann þrítugasta. Námsefnið fyrir það lokapróf þarf ég bara að gjöra svo vel að læra á þessum tíu dögum, þar sem ekki hefur gefist mikill tími í að lesa fyrir það fag þessar síðustu vikur...
Eins og staðan er núna þá er ég búin með 2 fög og á eftir ritgerðina og 1 fag. Fyrsta fagið kláraði ég í október og átti eftir að monta mig af því. Ég endaði með 9 í lokaeinkunn og var hæst í þeim áfanga. Annað fagið var risastóra verkefnið með Listaháskólanum og það þriðja er það sem ég tek svo lokapróf í. Þá er bara að krossa fingur og vona að ég nái þessu öllu með glæsibrag og massi þennan síðasta mánuð sem ég á eftir í háskólanámi. Í desember byrja ég svo bara að vinna á fullu, þar sem það eina sem gerist í skólanum þann mánuðinn er vörn á lokaritgerðinni...
Ég fékk ógeð á gamla góða bílnum mínum á sunnudaginn. Óþolinmóða ég gat ekki beðið með að ganga í þau mál og á mánudaginn var ég komin á ársgamla, frostbláa og stórglæsilega Toyota Corollu. Ég elska Toyota og ég elska að eiga bíl sem er ennþá smá "nýjubílalykt" af...
Og svo er það meira mont. Ég tók síðustu mælingu í Bootcampinu með trompi. Þar er mælt á 6 vikna fresti og var því komið að minni þriðju mælingu síðan ég byrjaði, þar sem fyrsta mælingin var gerð um leið og ég byrjaði. Frá síðustu mælingu fyrir 6 vikum er ég búin að missa 2,6% í fituprósentu, 5,5 kíló og missti svona pent 12 cm af mjöðmunum, takk fyrir. Síðan ég byrjaði frá upphafi er ég því komin niður um 6% í fituprósentu, 8,7 kíló og tæplega 2 buxnastærðir. Svo er ég auðvitað orðin alveg helmössuð, sem telur að sjálfsögðu líka...
Ætla nú að henda mér í að lesa smá kenningar fyrir lokaritgerðina og henda upp nokkrum gröfum með niðurstöðum úr rannsókninni okkar góðu...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar